Úthlutunarreglur

 1. Starfsmenntunarsjóður embættismanna starfar á grundvelli reglna kjararáðs um starfskjör. Samkvæmt reglum kjararáðs um almenn starfskjör, frá 17. nóvember 2015, renna 0,92% af mánaðarlaunum þeirra sem eiga aðild að honum í starfsmenntunarsjóðinn.
 2. Markmið sjóðsins er að auka tækifæri þeirra sem aðild eiga að honum til framhalds- og endurmenntunar svo og tölvukaupa.
 3. Aðild að sjóðnum eiga embættismenn sem heyra undir úrskurð Kjararáðs (aðrir en prestar) og þeir starfsmenn ríkisins sem standa utan stéttarfélaga.
 4. Rétt á styrkjum úr starfsmenntunarsjóðnum öðlast sjóðfélagar um leið og ráðningarsamband hefst og lýkur 6 mánuðum eftir að ráðningarsambandi lýkur. Sjóðfélagar eiga rétt á styrkjum fyrstu sex mánuði í launalausu leyfi. Jafnframt er heimilt að veita fagfélögum eða stofnunum sjóðfélaga styrki vegna námskeiða, ráðstefna eða fræðslu sem tengjast með beinum hætti starfsemi viðkomandi stofnana og stuðlar að starfsþróun sjóðfélaga.
 5. Í stjórn sjóðsins sitja tveir fulltrúar skipaðir af fjármála- og efnahagsráðherra. Annar þeirra gegnir jafnframt formennsku. Jafnframt getur stjórn sjóðsins ráðið til sín starfsmann til að annast umsýslu umsókna, greiðslu styrkja og fundargerðir
 6. Stjórn sjóðsins heldur fundi annan hvern mánuð að jafnaði, þar sem fjallað er um umsóknir sem bárust milli funda.
 7. Kostnaður umsækjanda við nám, námskeið, námsstefnur, ráðstefnur eða sambærilega þekkingaröflun, sem tengja má starfi hans og flokka má undir símenntun eða starfsþróun, er styrkhæfur. Erlendur ferðakostnaður sem hlýst af framangreindu er einnig styrkhæfur. Tómstundanámskeið eru ekki styrkhæf. Þá er greiddur allt að helmingur kostnaðar vegna tölvukaupa.
 8. Hámarksupphæð styrkja til sjóðfélaga er 500.000 kr. á hverjum 24 mánuðum. Þó er styrkur vegna náms- og kynnisferða erlendis að hámarki 150.000 kr. á hverjum 24 mánuðum og styrkur vegna tölvukaupa er að hámarki 150.000 kr. á hverjum 36 mánuðum.
 9. Greiðslur úr sjóðnum fara að jafnaði fram eftir að umsækjandi hefur gert grein fyrir útlögðum kostnaði með frumriti reikninga eða öðrum sannanlegum hætti.
 10. Þeir sem fengið geta styrk úr sjóðnum eru sjóðsfélagar, fagfélög þeirra og stofnanir vegna ráðstefna sem þau standa fyrir og uppfylla ákvæði 3. töluliðar. Stjórn ákveður hvaða fjármagni er veitt til styrkja stofnana og fagfélaga hverju sinni.
 11. Ef styrksloforðs er ekki vitjað innan 6 mánaða frá dagsetningu tilkynningar sjóðsins til umsækjanda fellur styrkloforðið niður.
 12. Í undantekningartilvikum getur sjóðstjórn vikið frá þeim viðmiðunum sem koma fram í 8. tölulið.

Umsækjendur eru hvattir til að vanda frágang umsókna og tilgreina m.a. nákvæmlega til hvers þeir ætla að verja styrkfé.

Reglurnar gilda frá 1. mars 2016

Starfsmenntunarsjóður embættismanna
[email protected]s