Úthlutunarreglur

 1. Úthlutunarreglur starfsmenntasjóðs eru settar á grundvelli samþykkta sjóðsins.
 2. Markmið sjóðsins er að styðja sjóðsfélaga til að viðhalda og þróa starfshæfni sína og menntun. Hvað forstöðumenn og stjórnendur varðar er áhersla lögð á stuðning til standa undir kröfum sem gerðar eru til þeirra í stjórnendastefnu ríkisins á hverjum tíma. Sjóðurinn getur jafnframt átt frumkvæði að verkefnum í þágu sjóðsfélaga sem samræmist markmiðum sjóðsins.
 3. Aðild að sjóðnum eiga þeir sem njóta almennra starfskjara skv. reglum nr. 490/2019 skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996 og þeir starfsmenn ríkisins sem standa utan stéttarfélaga. Jafnframt eiga þjóðkjörnir fulltrúar og ráðherrar aðild að sjóðnum.
 4. Rétt á styrkjum úr sjóðnum öðlast sjóðfélagar um leið og ráðningarsamband hefst og lýkur sex mánuðum eftir að ráðningarsambandi lýkur. Sjóðsfélagar eiga rétt á styrkjum fyrstu sex mánuði í launalausu leyfi. Heimilt er að veita fagfélögum eða stofnunum styrki vegna námskeiða, ráðstefna, þjálfunar eða fræðslu sem tengjast með beinum hætti starfsemi viðkomandi félaga og stofnana og stuðlar að starfsþróun sjóðfélaga, nýsköpun, framþróun og/eða bættu verklagi.
 5. Í stjórn sjóðsins sitja þrír fulltrúar skipaðir af fjármála- og efnahagsráðherra, þar af a.m.k. einn samkvæmt tilnefningu Félags forstöðumanna ríkisstofnana. Einn þeirra gegnir jafnframt formennsku. Stjórn sjóðsins getur ráðið til sín starfsmann til að annast umsýslu og afgreiðslu umsókna, greiðslu styrkja í samræmi við fyrirmæli stjórnar og ritun fundargerða. Stjórn sjóðsins fundar eftir því sem þurfa þykir til að fjalla um umsóknir og aðkomu sjóðsins að einstökum verkefnum.
 6. Stuðningur er veittur til þátttöku á ráðstefnum, námskeiðum, til viðurkennds framhaldsnáms með samþykki hlutaðeigandi ráðuneytis, til tölvukaupa eða annars sem samræmist markmiðum sjóðsins. Kostnaður umsækjanda vegna starfsþróunar, þjálfunar (þ.m.t. markþjálfunar og handleiðslu) eða þekkingaröflunar í samræmi við markmið sjóðsins, svo og ferðakostnaður sem hlýst af framangreindu er styrkhæfur, svo sem nánar er kveðið á um í reglum þessum. Tómstundanámskeið eru ekki styrkhæf. Þá er greiddur kostnaður vegna tölvukaupa.
 7. Hámarksupphæð styrkja til sjóðfélaga er 750.000 kr. á hverjum 24 mánuðum, þar af er styrkur vegna tölvukaupa að hámarki 150.000 kr. á hverjum 24 mánuðum.
 8. Greiðslur úr sjóðnum fara að jafnaði fram eftir að umsækjandi hefur gert grein fyrir útlögðum kostnaði með frumriti reikninga eða öðrum sannanlegum hætti.
 9. Þeir sem fengið geta styrk úr sjóðnum eru sjóðsfélagar, fagfélög þeirra og stofnanir vegna verkefna sem þau standa fyrir og uppfylla ákvæði 4. töluliðar. Stjórn ákveður hvaða fjármagn er veitt til að styrkja verkefni stofnana og fagfélaga hverju sinni samkvæmt reglum þessum.
 10. Ef styrkja er ekki vitjað innan sex mánaða frá dagsetningu tilkynningar sjóðsins til umsækjanda fellur styrkloforðið niður.
 11. Í undantekningartilvikum getur stjórn vikið frá þeim viðmiðum sem koma fram í 7. tölulið, með hliðsjón af markmiðum sjóðsins.

Umsækjendur eru hvattir til að vanda frágang umsókna og tilgreina m.a. með skýrum og nákvæmum hætti hvernig þeir hyggjast verja styrkfé. Vefslóð sjóðsins er www.starfsmenntunarsjodur.is.

Reglurnar gilda frá 1. mars 2021.

Starfsmenntunarsjóður embættismanna
[email protected]